Ferill 318. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 400  —  318. mál.




Frumvarp til laga



um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2001.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Til að standa straum af fjárframlögum vegna alþjónustu árið 2001 skal innheimta jöfnunargjald skv. 15. gr. laga um fjarskipti, nr. 107/1999, af gjaldskyldri veltu ársins. Gjaldið skal nema 0,12% af bókfærðri veltu eins og hún er skilgreind í 2. mgr. 15. gr. laga um fjarskipti.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt IV. kafla laga um fjarskipti, nr. 107/1999, er við útgáfu rekstrarleyfis hægt að kveða á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita alþjónustu. Umfang alþjónustu er skilgreint í 13. gr. laganna og ákvæðum reglugerðar nr. 641/2000, um alþjónustu. Þurfi fjarskiptafyrirtæki að veita alþjónustu þrátt fyrir að hún sé rekin með tapi eða óarðbær vegna ákvörðunar stjórnvalda getur það öðlast endurkröfurétt á hendur sérstökum jöfnunarsjóði. Rekstrarleyfishafi sem sinnir einhverjum þætti sem fellur undir alþjónustu vegna ákvörðunar stjórnvalda getur því snúið sér til Póst- og fjarskiptastofnunar og sótt um framlag úr jöfnunarsjóði ef þjónustan er rekin með tapi eða er óarðbær.
    Í samræmi við 14. gr. fjarskiptalaga óskaði Póst- og fjarskiptastofnun eftir umsóknum um fjárframlög úr jöfnunarsjóði vegna þeirra alþjónustukvaða sem eru lagðar á rekstrarleyfishafa samkvæmt leyfisbréfum þeirra. Ein umsókn barst um fjárframlag og var hún frá Neyðarlínunni ehf. Farið var fram á 20,5 millj. kr. vegna kostnaðar við neyðarsímsvörun sem skv. 4. gr. reglugerðar nr. 641/2000 telst vera alþjónusta og fyrirtækinu hefur verið gert skylt að veita samkvæmt rekstrarleyfi. Með umsókninni fylgdu fullnægjandi gögn um þann kostnað sem umsækjandi ber af alþjónustukvöð. Póst- og fjarskiptastofnun áætlar því að greiða 20,5 millj. kr. úr jöfnunarsjóði á árinu 2001.
    Lagt er til að jöfnunargjald verði ákveðið 0,12% fyrir árið 2001. Miðað er við veltu gjaldskyldra aðila á árinu 1999 (u.þ.b. 21,5 milljarðar kr.) og fjárþörf sjóðsins árið 2001. Í forsendum er gert ráð fyrir 5% lægri veltu árið 2001 en var 1999 vegna gjaldskrárlækkana sem leiða af harðnandi samkeppni. Stofninn er því áætlaður um 20 milljarðar kr. Nauðsynleg álagsprósenta telst vera 0,10% en er hækkuð í 0,12% til að reiknað sé með vanhöldum.
    Álagning og innheimta jöfnunargjalds fer eftir ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2001.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að setja á jöfnunargjald vegna alþjónustu. Í 15. gr. laga nr. 107/1999, um fjarskipti, er kveðið á um að jöfnunargjald skuli ákveðið árlega með lögum. Samkvæmt lögunum má skylda fjarskiptafyrirtæki til þess að veita svokallaða alþjónustu sem er skilgreind í 13. gr. laganna. Ef þjónustan felur í sér meiri tilkostnað en sem nemur tekjum getur viðkomandi fyrirtæki krafist fjárframlaga sem tryggja eðlilegt endurgjald fyrir þjónustuna. Til að standa straum af þessum greiðslum skal innheimt jöfnunargjald sem rennur til Póst- og fjarskiptastofnunar og skal það ákveðið árlega með lögum. Í frumvarpinu er lagt til að jöfnunargjaldið fyrir árið 2001 verði 0,12% af veltu fjarskiptafyrirtækja vegna almennrar þjónustu. Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu er gert ráð fyrir að stofn til álagningar verði 20 milljarðar kr. Samkvæmt því er áætlað að álagning nemi 24 m.kr. Gjöld á móti eru áætluð um 20 m.kr. sem er framlag vegna kostnaðar við neyðarsímsvörun og miðast við innheimtar tekjur. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem gert er ráð fyrir tekjum á móti gjöldum.